Innlent

Mikilvægt gen í íslenska hestinum getur gagnast lömuðum

Mjög margir íslenskir hestar búa yfir geninu mikilvæga.
Mjög margir íslenskir hestar búa yfir geninu mikilvæga.
Rannsóknir sænska vísindamannsins Leif Andersson prófessor hjá Uppsala háskólanum, á íslenska hestinum, hafa orðið til þess að hann hefur fundið skeiðgen sem getur bæði gagnast hestaræktendum og hugsanlega nýst við að lækna meiðsl á mænu mannslíkamans.

Fram kemur í tímaritinu Nature að eigendum hesta bjóðist á morgun að kaupa niðurstöður vísindamannsins svo þeir geti kannað hvort hestar þeirra eigi meiri möguleika sem keppnishestar.

Leif rannsakaði 70 hesta, meðal annars íslenska. 40 þeirra bjuggu yfir göngulaginu skeið, sem er nær því tvítakta hliðarhreyfing með svifi og er mjög flókin gangur hesta. 30 hestar gátu ekki gengið með þeim hætti. Niðurstaðan var sú að þeir hestar sem gátu skeiðað bjuggu yfir geninu DMRT3 sem var það eina sem greindi hestana frá hinum sem ekki gátu skeiðað.

Sérstaklega er tekið fram að genið er áberandi í íslenska hestinum.

Genið stjórnar prótíni í taugafrumum mænunnar, sem Andersson telur vera lykilatriði í samræmingu á hreyfingum fóta.

Leif segir í viðtölum við fjölmiðla að uppgötvunin sé ekki síst mikilvæg fyrir manneskjuna, það er að segja rannsóknum á lömun, því þarna sé að finna vísbendingar um það hvernig mænan stjórnar hreyfingum fóta og geti þannig gagnast lömuðum í framtíðinni.

Hér er hægt að lesa umfjöllun um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×