Handbolti

Spænsku stelpurnar náðu bronsinu eftir tvíframlengdan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Spænska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sér bronsverðlaun á Ólympíuleiknum í London í kvöld eftir dramatískan 31-29 sigur á Suður-Kóreu í tvíframlengdum leik. Þetta eru fyrstu verðlaun spænska kvennalandsliðsins í sögu handboltakeppni Ólympíuleikanna.

Þjóðirnar voru saman í riðli á leikunum og mættust í fyrsta leik mótsins en þá vann Suður-Kórea fjögurra marka sigur, 31-27. Spánn tapaði með einu marki á móti Svartfjallalandi í undanúrslitunum en suður-kóreska liðið tapaði þá fyrir Noregi.

Nely Carla Alberto og Begona Fernández voru markahæstar hjá Spáni með fimm mörk hvor en Silvia Navarro varði 15 skot. Gwon Han-Na skoraði mest fyrir Suður-Kóreu eða sex mörk.

Suður-Kórea komst mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik, 9-5 og 10-6, en spænska liðið var búið að jafna í 13-13 fyrir hálfleik. Spænska liðið náði síðan mest fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik, 15-19 og 16-20 en suður-kóreska liðið náði að jafna í 24-24 og tryggja sér framlengingu.

Spænska liðið var áfram með frumkvæðið í fyrri framlengingunni en kóresku stelpurnar jöfnuðu 29 sekúndum fyrir lok hennar og því beið liðanna önnur framlenging.

Spænska liðið var áfram á undan að skora í seinni framlengingunni og tryggði sér síðan bronsið með því að skora tvö síðustu mörkin og vinna leikinn 31-29. Mihaela Ciobanu, varamarkvörður spænska liðsins, varði fjögur víti í leiknum þar af þrjú þeirra í framlengingunum tveimur.

Noregur og Svartfjallaland spila um gullið klukkan 19.30 en þar getur íslenski þjálfarinn Þórir Hergeirsson gert norska kvennalandsliðið að Ólympíumeisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×