Viðskipti innlent

Harpan átti ekki að kosta skattgreiðendur neitt

Magnús Halldórsson skrifar
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa átti ekki að kosta skattgreiðendur neitt og reksturinn átti að standa undir sér, að því er sagt var þegar ríki og borg ákváðu að ljúka við byggingu hússins og reka það til framtíðar. Til stendur að velta við hverjum steini og endurskipuleggja rekstur hússins.

Endurskipulagning rekstrar Hörpunnar er nú á teikniborðinu og er áætlað að ný langtímaáætlun fyrir starfsemi hússins liggi fyrir í haust. Rekstur hússins hefur gengið afleitlega miðað við það sem upp var lagt með og en ef framheldur sem horfir verður reksturinn neikvæður um 407 milljónir króna á þessu ári, sem kallar á frekara fjármagn frá eigendunum.

Sú staða er alls ekki í samræmi við það sem lagt var upp með þegar ákvarðanir voru teknar um aðkomu ríkis og borgar að verkefninu eftir hrunið.

Þannig fullyrti Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, eiganda Hörpunnar, sem síðan er dótturfélag móðurfélagsins Austurhafnar, að skattborgarar þyrftu ekki að hafa áhyggjur af byggingu hússins.

Orðrétt sagði hann í útvarpsviðtali 24. janúar 2010:

"Þetta snertir ekki ríkissjóð ... Þetta hús verður sjálfbært, það er okkar verkefni að reka þetta hús með sjálfbærum hætti. Þannig að tekjur hússins eiga að duga og munu til að greiða niður lán af byggingunni og það á að greiða niður allan rekstrarkostnað þannig að það er ekki meiningin að þetta hús verði á húninum hjá ríkisstjórninni til að betla peninga einu sinni á ári."

Austurhöfn, sem er eigandi Hörpunnar, er 54 prósent í eigu ríkisins og 46 prósent í eigu borgarinnar. Heildarskuldir þess félags, sem skattborgarar eru í ábyrgðum fyrir, nema ríflega 23 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×