Viðskipti innlent

Stoðir selja 60% hlut í TM

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stoðir hf. hafa samið um sölu á 60% hlut í Tryggingamiðstöðinni hf. (TM) til hóps lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta. Kaupendur eru meðal annars Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stafir lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, Sjóður 10 á vegum Íslandssjóða, auk fjárfesta á vegum VÍB - Eignastýringar Íslandsbanka, Virðingar og Auðar Capital.

Samningurinn sem nú hefur verið undirritaður er m.a. gerður með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins, segir í tilkynningu frá Stoðum. Samningsaðilar vænta þess að skilyrði samningsins verði uppfyllt innan fárra mánaða og að afhending eignarhlutarins geti þá átt sér stað. Engar breytingar eru áformaðar á rekstri TM og mun þessi samningur engin áhrif hafa á stöðu viðskiptavina eðastarfsmanna félagsins.

Stoðir munu eiga tæplega 40% hlut í TM eftir þessi viðskipti. Stefnt er að skráningu TM á Aðallista NASDAQ OMX Iceland á fyrri hluta næsta árs og í tengslum við skráningu áforma Stoðir að selja hluta af eftirstandandi eignarhlut sínum í almennu hlutafjárútboði.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi Stoða í söluferli TM sem hófst í lok mars sl. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar voru ráðgjafar kaupenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×