Viðskipti innlent

ECB endurheimtir 600 milljarða frá íslensku bönkunum

Evrópski seðlabankinn, ECB, hefur nú endurheimt að fullu lán að fjárhæð fjórir milljarðar evra, eða rúmlega 600 milljarða króna sem veittir höfðu verið dótturfélögum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans í Lúxemburg í október 2008.

Lánveitingar voru hluti af reglulegri fyrirgreiðslu ECB á evrusvæðinu. Náið samstarf var um lausn málsins milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Lúxemborgar, að því er segir á vefsíðu Seðlabankans.

Lausafjárfyrirgreiðslan var veitt dótturfélögum íslensku bankanna af Seðlabanka Luxemborgar fyrir hönd Evrópska Seðlabankans í samræmi við reglur bankans. Við þrot íslensku bankanna var innlausn þeirra trygginga sem lagðar höfðu verið fram vandkvæðum bundin vegna dýpkandi fjármálakreppu og náðist samkomulag um að vinna tíma til að hámarka endurheimtur. Fjórum árum síðar, hafa lánin nú verið gerð upp að fullu án afskrifta af hálfu ECB.

Það samkomulag sem gert var í maí 2010 á milli Seðlabaka Íslands og Seðlabanka Lúxemborgar stuðlaði m.a. að þessari jákvæðu niðurstöðu. Samkomulagið snerist um skipulagða skuldbreytingu sérstakra veðkrafna í því skyni að forðast brunaútsölu, en hámarka þess í stað endurheimtur.

Náin samvinna seðlabankanna lagði grunn að árangsríkri lausn þessa vanda og mun stuðla að áframhaldandi samvinnu á milli Seðlabanka Lúxemborgar og Seðlabanka Íslands á ýmsum sviðum seðlabankastarfsemi.

Seðlabankastjóri Seðlabanka Lúxemborgar, Hr. Yves Mersch, heimsótti Ísland fyrir helgina í boði Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Bankastjórarnir ræddu meðal annars þau vandamál sem við er að glíma á Evrusvæðinu auk áframhaldandi samvinnu seðlabankanna tveggja. Mersch átti einnig fund með Oddnýu Harðardóttur fjármálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×