Viðskipti innlent

Bretum býðst Tilboð aldarinnar um næstu helgi

BBI skrifar
Tommi á Búllunni.
Tommi á Búllunni.
Hamborgarabúllan er farin í útrás og mun opna í London öðru hvoru megin við næstu helgi. Þá mun Bretum loks bjóðast Tilboð aldarinnar (e. Offer of the century) að hætti Tomma fyrir 8,9 pund, sem nemur tæpum 1700 krónum.

Unnið hefur verið að undirbúningi opnunarinnar síðustu mánuði. Og nú er stóri dagurinn loks í nánd. Búllan verður í svipuðum dúr og Íslendingar þekkja en einfaldari ef eitthvað er. „Það verða færri réttir á matseðli," segir Róbert Aron Magnússon, rekstraraðili Hamborgarabúllunnar í London.

„Fólk er orðið gríðarlega spennt hérna. Það eru svona 20-30 manns á dag sem spyr hvenær við opnum. Fyrirtæki sýna þessu mikinn áhuga. Allir rosa spenntir að smakka," segir Róbert.

Róbert segir að þeir séu komnir í samstarf við góða birgja, m.a. slátrara sem var valinn besti sjálfstæði slátrari Bretlands. „Við vissum það reyndar ekkert fyrr en við vorum búnir að taka ákvörðun. Við prófuðum hátt í 15 slátrara. Þetta var bara eins og fínasta vínsmökkun nema við náttúrlega kyngdum kjötinu," segir Róbert.

Hann segir að langtímamarkmiðið sé að opna fleiri staði og byggja upp eins konar keðju. En í bili verður staðurinn bara einn. „Við bara bíðum og sjáum hvernig fólk tekur í þennan fyrsta stað," segir hann.

Búllan verður í götu sem liggur samsíða Oxfordstræti skammt frá Debenhams. Þó staðurinn sé fyrst og fremst miðaður að breskum viðskiptavinum eru Íslendingum vitanlega velkomið að gæða sér á hinu gamalkunna tilboði aldarinnar á erlendri grundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×