Viðskipti innlent

Skúli Mogensen er ríkasti Íslendingurinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skúli Mogensen er ríkasti Íslendingurinn samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.
Skúli Mogensen er ríkasti Íslendingurinn samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.
Skúli Mogensen og eiginkona hans, Margrét Ásgeirsdóttir, eru ríkustu Íslendingarnir samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins. Blaðið lagðist yfir álagningaskrár ríkisskattstjóra sem birtar voru í gær og skoðaði eignir 170 manns. Hrein eign þeirra Skúla og Margrétar, það eru eignir umfram skuldir, nemur um 7,5 milljörðum króna.

Á eftir þeim kemur Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Viðskiptablaðið segir að eignir hennar nemi 4,8 milljörðum króna. Í þriðja sæti koma svo hjónin Finnur Reyr Stefánsson og Steinunn Jónsdóttir með 4,7 milljarða króna.

Skúli Mogensen vakti athygli þegar hann kom að rekstri tölvufyrirtækisins Oz um síðustu aldamót. Hann bjó í Kanada í sjö ár en seldi svo fyrirtæki sitt. Hann lýsti viðskiptasögu sinni í Klinkinu hér á Vísi fyrir fáeinum mánuðum. Þar sagði hann frá því að hann hefði búið í Kanada í sjö ár og byggt upp fyrirtæki þar. „Sömu helgi og allt hrynur á Íslandi erum við að selja félagið okkar til Nokia," segir hann í viðtalinu.

Eftir bankahrunið hér á Íslandi hefur Skúli fjárfest í MP banka, Securitas, Advania og WOW Air.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×