Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri athugaði rútubílstjóra

BBI skrifar
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Starfsmenn ríkisskattstjóra voru í lögreglufylgd við Þingvallavatn í morgun að taka út hvort rútubifreiðastjórar hefðu tilskilin leyfi til aksturs. Úttektin var þáttur í átakinu Leggur þú þitt af mörkum sem ríkisskattstjóri vinnur í samvinnu við SA og ASÍ.

„Við höfum verið að skoða bifreiðarstjóra, gistiheimili, veitingahús og ýmsar aðrar stéttir í tengslum við ferðaþjónustu um allt land undanfarið," segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. Aðgerðin í morgun var ein af mörgum svipuðum síðustu daga.

„Ég held nú að hingað til hafi flestir verið í lagi," segir Skúli og undirstrikar að átakið muni halda áfram af auknum krafti í haust. „Það verður farið í allar greinar í veitingarekstri og ferðaþjónustu."

Átakið hófst síðasta sumar og gekk fram yfir áramót, þá var tekin hvíld en átakið svo endurvakið nú nýlega. Átakið snýr m.a. að því að kanna landslagið í ferðaþjónustuiðnaði, t.d. hvort rútubílastjórar hafi tilskilin leyfi og séu ekki á atvinnuleysisbótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×