Viðskipti innlent

4 kílómetra lögn að Reykholti

JHH skrifar
Framkvæmdir við nýja vatnsveitu fyrir Reykholt og Kleppjárnsreyki í Borgarfirði verða boðnar út nú um helgina. Eftir ítarlega leit að fullnægjandi vatnsbóli fyrir Reykholt og Kleppjárnsreyki, hefur verið ákveðið að virkja vatnsból við mynni Rauðsgils og leggja 4,4 kílómetra langa aðveitulögn milli Rauðsgils og Reykholts. Þá verður byggð dælu- og stjórnstöð í grennd við vatnstökustaðinn.

Öll leyfi vegna framkvæmdarinnar liggja fyrir og verkútboð vegna lagnar aðveitulagnarinnar verður auglýst nú um helgina, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í byrjun september og verði lokið um næstu áramót.

Í þurrkatíðinni nú í sumar hefur þurft að aka vatni í tankbílum í Reykholt. Eftir að sýni reyndust ófullnægjandi í einu núverandi vatnsbóla hafa þeir flutningar verið auknir enn frekar. Nýja vatnsbólið á eitt og sér að geta að geta fullnægt þörfum viðskiptavina í Reykholti og á Kleppjárnsreykjum. Vatnsveitur þessara tveggja byggðarkjarna voru samtengdar fyrir nokkrum árum og hafa Reykhyltingar notið góðs af því.

Við Rauðsgil verður byggt lítið hús yfir dælu og stjórnbúnað. Starfsmenn OR munu annast framkvæmdir í Rauðsgili auk tenginga við aðveituæðina. Lagning hennar verður hinsvegar í höndum verktaka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×