Viðskipti innlent

Slitastjórn Kaupþings stefnir vátryggingafélögum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Slitastjórn Kaupþings hefur stefnt hópi vátryggingafyrirtækja í Bretlandi til að fá framlengda samninga vegna ábyrgðartryggingar stjórnenda bankans. Milljarða króna hagsmunir gætu verið í húfi vegna þessara samninga.

Um er að ræða samninga sem Kaupþing gerði á tryggingamarkaðnum Lloyd's í Lundúnum, en slitastjórn bankans stefnir hópi breskra vátryggingafélaga sem gerðu samninga um ábyrgðartryggingar stjórnenda við Kaupþings.

Samkvæmt þessum samningum eru tryggingafélögin sem gerðu samningana við Kaupþing skuldbundin til að greiða bankanum, og nú slitastjórn hans, bætur fyrir það tjón sem stjórnendur og stjórnarmenn í bankanum ollu honum í störfum sínum og einnig vegna ábyrgða sem kunna að falla á bankann vegna samninga og annarra athafna þessara stjórnenda.

Almennt eru í slíkum tryggingarskilmálum fyrirvarar. Til dæmis um ábyrgð sé úr gildi fallin ef stjórnendur hafa sýnt af sér saknæma háttsemi.

Samningar vegna trygginganna féllu úr gildi eftir hrunið veturinn 2008-2009, en vegna ákvæða í samningunum er ekki hægt að gera kröfu á grundvelli þeirra nema þeir séu enn í gildi.

Það þýðir að slitastjórn Kaupþings getur ekki krafist greiðslu á grundvelli tryggingasamninganna vegna atvika sem urðu þegar samningarnir voru í gildi ef samningarnir voru útrunnir þegar krafan var gerð. Af þessum sökum eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þrotabú bankans að fá samningana framlengda til að geta gert kröfur á grundvelli þeirra og gætu hagsmunir sem eru undir í málinu hlaupið á milljörðum króna.

Félögin hafa krafist frávísunar á stefnu slitastjórnar bankans og verður málflutningur um frávísunarkröfuna hinn 29. ágúst næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×