Viðskipti innlent

Hámarkslánsfjárhæð Íbúðalánasjóðs of lág

BBI skrifar
Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunardeildar Íbúðalánasjóðs.
Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunardeildar Íbúðalánasjóðs. Mynd/Róbert
Ástæðan fyrir því að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs hefur minnkað um nær helming á einu ári er ekki sú að sjóðurinn býður ekki upp á óverðtryggð lán. Þetta segir Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunardeildar sjóðsins. „Meginástæðan er að hámarkslánsfjárhæð hjá Íbúðalánasjóði er 20 milljónir," segir Hallur. Fjárhæðin hefur ekki hækkað frá því í júní 2008.

Hallur telur að meðalverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu sé 30 milljónir króna. Og þar sem fólki dugi ekki 20 milljóna króna lán Íbúðalánasjóðs leiti það til annarra fjármálastofnana.

Fram kom á Vísi í gær að Íbúðalánasjóður hefði lánað um 45% færri lán það sem af er þessu ári miðað við sama tíma í fyrra. Forstjóri Íbúðalánasjóðs taldi skýringuna liggja í því að sjóðurinn hefur ekki boðið upp á óverðtryggð lán öfugt við aðrar fjármálastofnanir. Hallur blæs á þessar skýringar og telur raunverulegu skýringuna liggja í of lágri hámarksfjárhæð lána.

Hallur fullyrðir sömuleiðis að hægt hafi á uppbyggingu á fasteignamarkaði sökum þess að hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðs hafi verið of lág of lengi. Hallur telur að lengri tíma taki að reisa ný hús vegna þessa.


Tengdar fréttir

Íbúðalánasjóður lánar minna

Íbúðalánasjóður hefur lánað mun minna til fasteignakaupa það sem af er ári en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir 20% meiri veltu á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×