Viðskipti innlent

Alvarlegt ástand á ýsustofninum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ýsa
Ýsa
Ástand ýsustofnsins er alvarlegt að mati formanns Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann telur að það geta haft veruleg áhrif á útgerðirnar að minnka þurfi ýsukvótann og valdið erfiðleikum í stýringu á veiðunum.

Minna verður leyft af veiðum á ýsu næsta vetur en í fyrra eða 9 þúsund tonnum minna. Verulega hefur verið dregið úr veiðunum síðustu ár en fiskveiðiárið 2006 til 2007 voru leyfðar veiðar á 105 tonnum.

„Það er í raun og veru alvarlegt ástand með ýsustofninn þar sem það eru að koma fjórir lélegir árgangar inn í veiðina," segir Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ.

„Það getur haft veruleg áhrif þegar að ýsan fer þetta mikið niður. Okkur var leyft að veiða 45 þúsund tonn á síðsta ári og förum niður í 36 þúsund tonn. Það er alveg á mörkunum þannig að menn verða að fara mjög gætilega í veiðum á ýsu og menn verða að vera mjög á tánum varðandi það. Það getur haft áhrif að einhverjar útgerðir lenda í erfiðleikum með það að skipuleggja sínar veiðar," segir hann.

„Málið er það að þegar úthlutun kemur misjafnlega niður á skipunum og menn standa misjafnlega með aflaheimildir á ýsu þá getur þetta valdið erfiðleikum við stýringu á veiðum," segir Adolf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×