Viðskipti innlent

Kaupin eru gleðitíðindi fyrir Eimskip

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segist fagna kaupum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hlut í fyrirtækinu. Unnið er að skráningu félagsins í Kauphöllina en miðað við kaup lífeyrissjóðsins er verðmæti félagsins 36 milljarðar króna. Bandaríkjamenn sem keyptu hlutabréf í Eimskip eftir hrun hafa hagnast vel á fjárfestingu sinni.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir fjárfestingu Lífeyrissjóðs verslunarmanna jákvæð tíðindi fyrir félagið, en eins og fréttastofan greindi frá í gærkvöldi hefur lífeyrissjóðurinn keypt 14 prósenta hlut í Eimskip af bandaríska fyrirtækinu Yucaipa og slitastjórn Landsbankans, en hvor aðili um sig seldi 7 prósenta hlut.

Gylfi segist í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofunnar finna fyrir auknum áhuga á félaginu en undirbúningur að skráningu þess í Kauphöll Íslands stendur nú yfir. Við skráninguna gefst fjárfestum og almenningi að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu.

Miðað við þessi viðskipti sem við sögðum frá í gær er Eimskip 36 milljarða króna virði, eða umtalsvert verðmætara en þegar Yucaipa keypti bréf í fyrirtækinu að lokinni endurskipulagningu sumarið 2009.

Það er því ljóst að Bandaríkjamennirnir hafa hagnast vel á fjárfestingu sinni í krónum talið að minnsta kosti.

Reksturinn hefur batnað og hefur starfsfólk verið verðlaunað í samræmi við það, en fyrir nokkru síðan samdi stjórn Eimskips um gerð kaupréttarsamninga við stjórnendur félagsins, þar á meðal forstjórann Gylfa Sigfússon.

Lykilstjórnendum Eimskips mun bjóðast að eignast hluti í félaginu á umtalsvert lægra gengi en reiknað er með að verði fyrir hendi þegar félagið verður skráð á markað í september.

Miðað við heildarvirði þeirra hluta sem lykilstjórnendurnir eignast með kaupréttarkerfinu, gæti virði þess hlutar verið allt að 1,4 milljarðar króna við skráningu félagsins í haust.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóður verzlunarmanna kaupir stóran hlut í Eimskip

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur gengið frá kaupum á 14 prósenta hlut í Eimskip af slitastjórn Landsbankans og bandaríska fyrirtækinu Yucaipa á rúmlega 5 milljarða króna. Kaupin gætu styrkt Eimskip fyrir skráningu í Kauphöll Íslands í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×