Viðskipti innlent

Telur fjármál sveitarfélaga þokast í rétta átt

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Álftanes
Álftanes
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir telur fjármál sveitarfélaganna vera að þokast í rétta átt þó erfið mál hafi komið upp hjá sumum þeirra. Eftirlitsnefnd vill endurskoða fjármál um þriðjungs þeirra.

Fjármál hátt í þrjátíu sveitarfélaga þarfnast skoðunar annað hvort vegna slæmrar skuldastöðu eða rekstrarhalla. Þetta er um þriðjungur allra sveitarfélaga á landinu en þau fengu í lok júní sent bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna vegna þessa. Halldór Halldórsson er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Það er hátt hlutfall og það verður að hafa það í huga að við vorum að ganga í gengum mjög erfitt skeið sem hefur haft mjög erfið áhrif hjá sveitarfélögunum. Það er annars vegar það sem allir þekkja, erfiðrekstrarskilyrði og svo framvegis eftir hrunið. Svo hitt líka að reglur hafa auðvitað verið hertar og það hefur ekki síst verið fyrir í rauninni tilverknað sveitarfélaganna sjálfra sem hafa verið alveg 100% með í því. Í rauninni haft ákveðið frumkvæði í því að breyta fjármálakafla sveitarstjórnarlaganna, svo ég taki sem dæmi, þar sem það eru miklu strangari skilyrði um það hvað sveitarfélögin mega skulda sem hlutfall af tekjum og svo framvegis. Þetta eru það ströng skilyrði að við gefum okkur tíu ár fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu til þess að aðlagast þeim," segir Halldór.

Halldór segir að vissulega hafi menn haft áhyggjur af fjármálum einstakra sveitarfélaga.

„Það hafa komið upp erfið mál hjá einstökum sveitarfélögum en í heild sinni og hjá þeim sveitarfélögum líka þar sem hafa verið mjög erfið mál, bæði hjá þeim og í heild sinni þá er þetta allt saman að þokast í rétta átt að mínu mati," sagði Halldór Halldórsson.


Tengdar fréttir

Fjölmörg sveitarfélög með slæma skuldastöðu

Fjármál hátt í þrjátíu sveitarfélaga þarfnast skoðunar annað hvort vegna slæmrar skuldastöðu eða rekstrarhalla. Öll hafa þau fengið sent bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×