Viðskipti innlent

Miklar hækkanir á verði fiskimjöls það sem af er ári

Hátt verð á korni, sojabaunum og hveiti hefur valdið miklum hækkunum á verði á fiskimjöli þannig að góð loðnuvertíð gæti orðið íslenska þjóðarbúinu mikil búbót á komandi vetri.

Þetta skýrist af því að stór hluti af korni og sojabaunum er notaður í dýrafóður eins og fiskimjöl. Því hækkar fiskimjölið í verði í takt við kornið og sojabaunirnar. Þannig var heimsmarkaðsverð á fiskimjöli tæplega 1.300 dollarar á tonnið í janúar s.l. þegar síðasta loðnuvertíðin hófst. Í síðasta mánuði var þetta verð komið yfir 1.640 dollara á tonnið og hafði hækkað um rúmlega 25% á árinu.

Reikna má með að hluti af makrílafla Íslendinga í sumar verði settur í bræðslu sökum þess hver verð á fiskimjöli er hátt um þessar mundir og fer þar að auki hækkandi. Þetta stafar meðal annars af því að á sama tíma hefur verið á frystum makríl farið lækkandi í Rússlandi sem er einn helsti markaður Íslendinga fyrir frystan makríl. Hefur verðið í Rússlandi lækkað úr um 1.800 dollurum á tonnið og niður í 1.500 dollara og er þar með orðið minna en fæst fyrir tonnið af mjölinu.

Heimsmarkaðsverð á korni, sojabaunum og hveiti hefur rokið upp að undanförnu vegna þess að allt stefnir í uppskerubrest í Bandaríkjunum í haust. Miklir þurrkar hafa hrjáð Bandaríkjamenn undanfarnar vikur, þeir mestu í næstum sextíu ár.

Fjallað er um málið í Financial Times en þar segir að verð á korni hafi hækkað um 44% á síðasta mánuði, verð á hveiti um 45% og verð á sojabaunum um 17%.

Þessar hækkanir hafa vakið upp minningar um það sem gerðist árin 2007 til 2008 þegar svipaður uppskerubrestur olli miklum mataruppþotum í um 30 löndum víða um heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×