Viðskipti innlent

Þróttur í atvinnulífinu en hagvöxtur þyrfti að vera meiri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mun meiri þróttur virðist vera í atvinnulífinu en spár gerðu ráð fyrir, segir Hagfræðideild Landsbanka Íslands sem gerir atvinnuleysistölur að umræðuefni í daglegum pistli. Atvinnuleysi í júní mældist 4,8% en 6,7% í júní í fyrra.

Hagfræðideild Landsbankans býst við því að þær atvinnuleysistölur sem eiga eftir að koma í sumar verði í samræmi við seinustu tölur. Það er hins vegar meiri óvissa um hvað gerist í haust þegar sumarverkin í byggingariðnaði og ferðamannaiðnaði klárast. Þá kemur betur í ljós hvort vinnumarkaðurinn sé í raun að taka við sér hraðar en búist var við eða hvort það sé bara óvenju mikið að gerast þetta sumar.

Hagfræðideild Landsbankans segir aftur á móti að vísbendingar um einkaneysluna fyrri helming ársins bendi til helmingi minni vaxtar en flestar opinberar þjóðhagsspár geri ráð fyrir. Því þurfi veltan á seinni helmingi ársins að aukast verulega eigi spárnar að ganga eftir. Verði það ekki raunin sé útlit fyrir að hagvöxturinn á þessu ári verði talsvert minni, að öðru óbreyttu, en spáð hefur verið. Á móti vegi að mun hraðar hafi dregið úr atvinnuleysi undanfarna tvo mánuði en reiknað hafi verið með. Ef sú þróun haldi áfram kunni að reynast innistæða fyrir kröftugri vexti einkaneyslu á seinni helmingi ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×