Viðskipti innlent

Lögreglurannsókn á máli Ármanns og Guðna fellur niður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ármann Þorvaldsson var forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander.
Ármann Þorvaldsson var forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander.
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, The Serious Fraud Office, hefur látið rannsókn á máli þeirra Ármanns Þorvaldssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings Singer & Friedlander, og Guðna Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings, niður falla. Málið tengist rannsókn bresku lögreglunnar á viðskiptum bræðranna Roberts og Vincent Tchenguz við hinn fallna Kaupþing banka. Singer & Friedlander var sem kunnugt er breskt dótturfyrirtæki Kaupþings.

Breska blaðið Daily Telegraph fjallar um málið á vef sínum í dag, en Ármann Þorvaldsson segir í samtali við Vísi að honum hafi verið kynnt niðurstaðan með bréfi fyrir viku síðan. „Ég er laus allra mála held ég," segir Ármann í samtali við Vísi. Hann segir aftur á móti að tilfinningar séu blendnar því að bæði hann og Guðni voru handteknir í Lundúnum vegna rannsóknar málsins. „Þetta var rannsókn sem átti aldrei að hefjast. En maður er aðeins með beiskt bragð í muninnum vegna þess hvað þeir gerðu í fyrra," segir Ármann.

Ármann er ekki sannfærður um að hann muni krefjast skaðabóta vegna handtökunnar. „Ég er bara ekki bíunn að kanna það almennilega. Ég á eftir að ræða það aðeins betur við lögfræðinginn," segir Ármann og bendir á að stutt sé liðið síðan málið kom upp. „Það er dýrt að leita réttar síns í Bretlandi, þannig að ég veit ekki hvað ég geri," segir hann.

Stutt er síðan breska fjármálaeftirlitið kynnti niðurstöður sínar á rannsókn á aðdraganda falls Singer & Friedlander. Sú rannsókn var óskyld þessari sakamálarannsókn bresku lögreglunnar, en fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að stjórnendur Kaupþings, þeir Hreiðar Má, Sigurður Einarsson og Ármann Þorvaldsson hefðu hvorki brotið lög né reglur. Þeim var hins bannað að stjórna eftirlitsskyldu fjármálafyrirtæki í Bretlandi í fimm ár frá bankahruninu. Bannið rennur út í október á næsta ári.



Hér má sjá umfjöllun Telegraph um málið.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×