Viðskipti innlent

N1 býður starfsmönnum Hyrnunnar aftur vinnu

BBI skrifar
Hermann Guðmundsson, forstjóri N1.
Hermann Guðmundsson, forstjóri N1. Mynd/Stefán Karlsson
Olíufyrirtækið N1 ætlar að reka veitingastað og vegasjoppu í Hyrnunni þar sem Samkaup voru áður. Starfsmönnum Hyrnunnar sem sagt var upp störfum í síðustu viku verður boðin vinna á veitingastað N1, að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1.

„Það er stefna N1 að reka alla sína stóru þjóðvegarskála sjálfir," segir Hermann og því hafi N1 gripið tækifærið þegar leigusamningur Samkaupa á Hyrnunni rann út.

N1 áformar að opna nýjan og mikið breyttan stað í Hyrnunni næsta vor. Húsið fær að standa en verður allt innréttað upp á nýtt. Að því leyti verður þessi yfirtaka ólík því þegar N1 tók yfir rekstur Staðarskála, en þá var gamli skálinn rifinn og nýr byggður frá grunni.

Staðurinn verður stærri og umfangsmeiri í rekstri N1. Starfsemin verður í anda bensínstöðva N1 í Ártúnsbrekku og Hringbraut. Því verður gert ráð fyrir fleira starfsfólki en nú starfar í Hyrnunni. Hermann er fullviss um að skilyrði séu fyrir að reka svo stóran veitingastað á þessum slóðum, enda sé mikill straumur ferðamanna á svæðinu á sumrin.


Tengdar fréttir

Tíu starfsmönnum Hyrnunnar í Borgarnesi sagt upp

Tíu starfsmenn Samkaupa í Hyrnunni í Borgarnesi fengu uppsagnarbréf í síðustu viku. Frá þessu er greint á vefsíðu Skessuhorns. Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa sem rekið hefur Hyrnuna, segir að þetta sé gert vegna þess að leigusamningur Samkaupa við húseigendur, N1, er að renna út um næstu áramót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×