Viðskipti innlent

Fjarðaál flutti út vörur fyrir 95 milljarða í fyrra

Fjarðaál flutti út vörur fyrir um 95 milljarða króna á síðasta ári. Ál nemur um 40% af öllum vöruútflutningi frá landinu, sem er svipað hlutfall og útflutningur sjávarafurða, og nemur hlutur Fjarðaáls í honum um 17 prósentum. Ekkert annað fyrirtæki flytur út meira vörumagn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirliti Fjarðaáls um helstu hagstærðir í starfsemi álversins á síðasta ári og nýlega voru gefnar út.

Á árinu urðu um 35% af útflutningstekjum Fjarðaáls eftir í landinu, eða um 33 milljarðar króna, m.a. í formi launa, opinberra gjalda, innkaupa frá innlendum birgjum á vöru og þjónustu og samfélagsstyrkja. Innlendir birgjar Fjarðaáls eru á þriðja hundrað og keypti fyrirtækið vöru og þjónustu fyrir rúma 11 milljarða króna á árinu. Eru raforkukaup þá undanskilin.

Fjarðaál hefur frá því að álframleiðsla hófst árið 2007 varið tæpum 9 milljörðum króna til fjárfestinga vegna starfseminnar, þar af um 6 milljörðum á síðasta ári, aðallega til byggingar kersmiðju, sem tók til starfa í júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×