Viðskipti innlent

Ríkið þarf að endurheimta aðstoð frá Verne

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að biðja íslenska ríkið um að endurheimta ríkisaðstoð að andvirði 220 milljónir króna frá Verne gagnaveri. Jafnframt var komist að niðurstöðu um að orkukaupasamningur og lóðaleigusamningur Verne við Landsvirkjun fælu ekki í sér ríkisaðstoð.

Ríkisaðstoðin var veitt árið 2008 þegar ríkið seldi Verne fimm byggingar á gamla varnarliðssvæðinu við Keflavíkurflugvöll undir markaðsvirði, eftir því sem fram kemur á heimasíðu ESA. Muninn á markaðsvirði og söluvirði bygginganna fimm þurfi að endurheimta frá fyrirtækinu.

Reykjanesbær hefur að auki veitt Verne undanþágu frá fasteigna- og gatnagerðargjöldum frá árinu 2009. ESA hefur komist að niðurstöðu um að þessar undanþágur séu ósamræmanlegar EES-samningnum og skuli því einnig endurheimtar frá Verne.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×