Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir í opinberri ábyrgð tifandi tímasprengja

Magnús Halldórsson skrifar
Neikvæð staða lífeyrissjóðanna, sem eru með opinberri ábyrgð, er eins og tifandi tímasprengja fyrir ríkissjóð. Lífeyrisgreiðslur til þeirra sem eiga rétt í lífeyrissjóðum, þar sem engin opinber ábyrgð er, hafa verið skertar um 130 milljarða króna frá hruni, á meðan lífeyrir flestra opinberra starfsmanna hefur ekkert skerst.

Samkvæmt mati Fjármálaeftirlitsins á stöðu lífeyrissjóðakerfisins, sem kynnt var í gær, er neikvæð tryggingarfræðileg staða, það er eignastaða miðað við skuldbindingar við sjóðsfélaga í framtíðinni, sláandi.

Skerðing á lífeyrisréttindum sjóðsfélaga í þessum sjóðum hefur numið um 130 milljörðum frá hruni samkvæmt mati FME.

Staðan hjá hinum opinberu sjóðum er hins vegar mun alvarlegri, eins og hér sést, en hjá þeim búa opinberir starfsmenn við opinbera ábyrgð á lífeyrisréttindum.

Samtals er neikvæða staðan upp á tæplega 700 milljarða, og eru sjóðir með opinbera ábyrgð með um 434 milljarða af því. Þetta þýðir að ef fram heldur sem horfir þá munu ríki og sveitarfélög þurfa að leggja sjóðunum til fé í framtíðinni til þess að geta staðið við skuldbindingar við sjóðfélaga, sem munu hlaupa á tugum milljarða árlega.

Helsta áhyggjuefnið er staða B-deildar LSR, en hún er neikvæð um 344 milljarða króna.

Fjármálaeftirlitið segir í mati sínu að lausnir á þessum vandamálum séu á borði stjórnmálamanna, en þar kemur helst til greina að afnema með öllu opinbera ábyrgð á sjóðunum, þannig að til skerðinga geti komið hjá þeim eins og öðrum sjóðum, hækka iðgjaldagreiðslur eða að hækka lífeyrisaldurinn sem í dag er 67 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×