Viðskipti innlent

Ísland kannski fyrirmynd fyrir Breta

BBI skrifar
Rannsóknarnefnd Alþingis.
Rannsóknarnefnd Alþingis.
Rannsóknarnefnd Alþingis og viðbrögð Íslendinga við hruninu árið 2008 geta orðið ákveðin fyrirmynd fyrir breska þingmenn sem hafa síðustu daga krafist þess að bankakerfi landsins verði rannsakað af óháðum aðila. Á þetta er bent í frétt The Financial Times.

Eftir að vaxtasvindl bankans Barclays komst í hámæli í Bretlandi hafa þingmenn Verkamannaflokksins krafist þess að settur verði á fót sjálfstæður rannsóknaraðili til að gaumgæfa kerfið í landinu. Í frétt The Financial Times er spurt hvort þeir viti alveg hvers þeir eru að óska sér.

Eftir 15 mánaða vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis kom út hin ítarlega skýrsla. Og þó bankastarfsmenn landsins hafi þar mjög verið gagnrýndir kom einnig í ljós að stjórnmálamenn höfðu gerst sekir um alvarlega vanrækslu. Þetta leiddi meðal annars til Landsdómsmálsins þar sem Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var fundinn sekur um stjórnarskrárbrot.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var gerð til að sefa almenna reiði fólks í landinu og finna leið til að vinna úr hruninu. Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir í viðtali við blaðið að í raun hafi skýrslan verið yfirgripsmikil og mikilvæg til upplýsingar í sakamálarannsóknum gegn yfir 100 manns í fjármálageiranum.

Skýrslan hafði einnig mikil áhrif í vinnu við stjórnlagafrumvarp stjórnlagaráðs. Í The Financial Times er fjallað um hve mikið lof skýrslan hlaut hjá íslenskum almenningi og sagt frá því hvernig öll níu bindin voru lesin upp í Borgarleikhúsinu eftir að hún kom út.

Kröfur hinna bresku þingmanna um rannsókn sjálfstæðs aðila á fjármálakerfi landsins minna um margt á Rannsóknarnefnd Alþingis og í frétt The Financial Times eru því gerðir skórnir að Ísland geti verið fyrirmynd fyrir Bretland að þessu leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×