Viðskipti innlent

Farþegum Icelandair fjölgaði um 15% milli ára í júní

Icelandair flutti 246 þúsund farþega í millilandaflugi í júní og voru þeir 15% fleiri en í júní á síðasta ári. Framboðsaukning var 15% á milli ára.

Sætanýting nam 82,5% og jókst um 1,7 prósentustig á milli ára. Farþegum fjölgaði mest á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 24% og aukningin á ferðamannamarkaðinum til Íslands nam um 17%. Þetta kemur fram í yfirliti um flutningstölur félagsins.

Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru um 35 þúsund í júní sem er hækkun um 5% á milli ára. Sætanýting nam 71,1% og jókst um 0,4 prósentustig á milli ára.

Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 7% m.v. júní á síðasta ári, þar sem fraktvélar í leiguflugsverkefnum voru einni færri en í fyrra. Fraktflutningar jukust um 20% á milli ára.

Framboð á gistinóttum hjá hótelum félagsins jókst um 13% frá júní á síðasta ári. Herbergjanýting var 75,3% og var 2,7 prósentustigum hærri en í júní 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×