Viðskipti innlent

Frönsk leikfangakeðja vill kaupa Hamley's

Frönsk leikfangakeðja er í samningaviðræðum um að kaupa hinar sögufrægu bresku leikfangaverslanir Hamley's af slitastjórn Landsbankans fyrir 60 milljónir punda, jafnvirði 12 milljarða króna. Hamley's var áður í eigu Baugs Group áður en fyrirtækið fór í þrot.

Franska leikfangaverslanakeðjan Group Ludendo er í samningaviðræðum um kaup á hinni sögufrægu leikafangakeðju Hamley's af slitastjórn Landsbankans, en frá þessu var fyrst greint í Sunday Times .

Ludendo rekur leikfangaverslanir í Frakklandi, Belgíu, Sviss og Spáni. Kaupverðið er sagt vera um 60 milljónir punda, jafnvirði 12 milljarða króna.

Hamley's, sem á 250 ára sögu er ein stærsta leikfangakeðja í heimi og rekur stærstu dótabúð í heimi á Regent Street í Lundúnum. Baugur Group eignaðist ráðandi hlut í félaginu á útrásartímanum árið 2003 en fyrirtækið rann síðan í faðm kröfuhafa eins og Landsbankans við þrot Baugs.

Góður rekstur er á Hamley's en fyrirtækið seldi leikföng fyrir um átta milljarða króna í fyrra.

Baldvin Valtýsson, fyrrverandi starfsmaður Landsbankans í Lundúnum og Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, sitja í stjórn fyrirtækisins fyrir hönd slitastjórnar Landsbankanks.

Páll Benediktsson, talsmaður slitastjórnar Landsbankans segir að slitastjórnin muni ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

„Við tjáum okkur ekki um þetta. Það er alltaf eitthvað í gangi og menn hafa nálgast okkur alveg frá byrjun en það er ekkert formlegt söluferli í gangi á Hamley's," segir Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×