Viðskipti innlent

Umframeftirspurn eftir hlutabréfum í Regin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í fasteignafélaginu Regin hf., dótturfélagi Eignarhaldsfélags Landsbankans ehf., í almennu hlutafjárútboði sem lauk klukkan fjögur í gær. Á meðal helstu eigna Regins eru Smáralind og Egilshöll. Í útboðinu bauð Eignarhaldsfélag Landsbankans allt að 975 milljónir hluta í Regin til sölu, eða sem nemur 75% hlutafjár í félaginu.

Heildareftirspurn í útboðinu nam 10,3 milljörðum króna. Heildarsöluverðmæti útboðsins var 7.895 milljónir króna. Tekið var tilboðum í 963 milljónir hluta en Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf. ákvað að halda eftir rúmlega 12 milljónum hluta í Regin til þess að selja til viðskiptavaka. Við skráningu mun Eignarhaldsfélag Landsbankans eiga 25% hlut í Regin.

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að útboðsgengi hefur verið ákveðið 8,2 krónur á hlut. Allir sem buðu verð á eða yfir útboðsgengi og tilgreindu hámarksverð á eða yfir útboðsgengi fá úthlutað hlutum. Tilboðum undir útboðsgengi var hafnað.

Hluthafar í Regin verða tæplega eitt þúsund og að frátöldu Eignarhaldsfélagi Landsbankans ehf. sem á 25% hlut í félaginu, eiga allir hluthafar minna en 10% hlut hver.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×