Viðskipti innlent

Iceland Express mátti auglýsa rýmri vélar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þrjú íslensk flugfélög fljúga um Keflavíkurflugvöll. Það eru Icelandair, Iceland Express og WOW.
Þrjú íslensk flugfélög fljúga um Keflavíkurflugvöll. Það eru Icelandair, Iceland Express og WOW.
Iceland Express braut ekki lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þegar fyrirtækið auglýsti að „nýjar og betri flugvélar væru mun rýmri og að í þeim væri meira pláss". Þetta er niðurstaða Neytendastofu sem kvað upp úrskurð sinn í síðustu viku. Þegar Iceland Express hóf að nota Airbus 320 vélar voru þær auglýstar og sagðar mun rýmri en eldri vélar félagsins. Icelandair kærði auglýsinguna til Neytendastofu og sagði að ekki væri fótur fyrir þeim fullyrðingum sem væru settar fram í þeim.

Í niðurstöðu Neytendastofu segir að Iceland Express hafi bent á gögn þar sem ýmsir þættir Boeing 737, eins og þær sem félagið notaðist við, og Airbus 320 bornir saman. Þar á meðal sé almenn breidd vélanna, farþegarými, stærð geymslurýmis og gluggafjöldi. Neytendastofa telur að með vísun í framangreind gögn hafi Iceland Express fært fullnægjandi sönnur á fullyrðingar sínar um að vélarnar séu mun rýmri og að í þeim sé meira pláss. Neytendastofa telur því fulljóst að Iceland Express hafi ekki veitt neytendum villandi, rangar eða ófullnægjandi uppýsingar í þessu tilliti.

Icelandair gerði einnig athugasemdir við auglýsingar WOW air um sætabil í flugvélum sínum og kvartaði til Neytendastofu. Í byrjun júní komst Neytendastofa að auglýsingar WOW air væru ekki villandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×