Viðskipti innlent

Bensínverð á Íslandi fylgir ekki heimsmarkaðsverði

Magnús Halldórsson skrifar
Olíuverð hefur lækkað mikið á alþjóðamörkuðum undanfarin misseri, en útsöluverð á bensíni til almennings hér á landi hefur ekki fylgt þeirri þróun. Líklegt er að bensínverð muni lækka enn frekar á næstunni.

Hrávara hefur verið svo gott sem í frjálsu falli á alþjóðamörkuðum undanfarnar vikur, og er það ekki síst rakið til almennrar minnkandi eftirspurnar vegna erfiðs efnahagsástands.

Þetta hefur sínar góðu hliðar fyrir almenning hér á landi, en útsöluverð á olíu og bensíni hefur farið lækkandi undanfarin misseri. En lækkunin hjá olíufélögunum til neytenda hefur þó ekki verið í samræmi við lækkunina á mörkuðum.

Sé lækkunin skoðuð, og tímabilið frá 1. mars á þessu ári til dagsins í dag sérstaklega, sést að verðið á alþjóðamörkuðum hefur lækkað um tæplega 30 prósent í krónum talið.

Bensínverðið til neytenda hefur hins vegar ekki fylgt þróuninni, en það var að meðaltali 254,5 krónur á lítrann 1. mars en í dag er það 241,65 krónur á lítrann. Lækkunin nemur því um 5 prósentum.

Ef verðið hefði alveg stýrst af verðþróun á alþjóðamörkuðum þá ætti bensínverðið að vera tæplega 180 krónur á lítrann, eða sem nemur tæplega 60 krónum minna á hvern lítra.

Eitt af því sem skýrir hvers vegna verðið hefur ekki lækkað meira til neytenda, er að gjöldin sem leggjast ofan bensínið, sveiflast ekki með verðinu á alþjóðamörkuðum.

Þannig er vörugjaldið er 24,76 kr., bensíngjald 39,51kr., flutningsjöfnun 0,4 krónur og kolefnisgjald er 5 krónur, auk þess sem virðisaukaskattur leggst ofan á innkaupaverðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×