Viðskipti innlent

Stórt skref í endurreisn efnahags landsins

MH skrifar
Við erum vel á veg komin út úr efnahagsþreninginum, segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans. Hann segir bankann vera búinn að stíga stórt skref í endurreisn efnahags landsins með sölu á eignum og að brátt verði bankinn búinn að losa sig við neikvæð áhrif hrunsins.

Landsbankinn tilkynnti um það 22. júní sl. að bankinn hefði lokið við sölu á öllum eignur í óskyldum rekstri, og að það markaði ákveðinn þáttaskil í rekstri bankans sem endurreistur var á grunni innlendra eigna gamla Landsbankans. Steinþór Pálsson, bankastjóri, segir um stóran áfanga vera að ræða.

„Þetta er stór áfangi. Við náum nú að lækka eignir til sölu um hundrað milljarða á seinustu tveimur árum. Þetta er hluti af miklu stærri mynd. Það var hrun hér eins og allir vita og við erum búin að vera upptekin við að vinna í efnahagsreikningi okkar og þá um leið efnahagsreikningi allra viðskiptavina," segir Steinþór

Endurskipulagning á fjárhag nær allra viðskiptavina bankans, þar með talið heimila, er nú að mestu lokið en það hefur ekki gengið áfallalaust. Steinþór segir t.d að mörg fyrirtæki hafi kvartað sáran yfir því að eiga að samkeppni við fyrirtæki í eigu bankans.

„Eftirlitsaðilar hafa af þessu áhyggjur. Viðskiptaaðilar hafa af þessu áhyggjur, að þeir séu að keppa við samkeppnisaðila sem eru í eigu okkar. Til lengri tíma er það ekki hollt. Og við höfum unnið eins hratt og vel og við höfum getað að því að selja þessar eignir. Og smátt og smátt erum við að losa okkur við þetta hrun. Þrátt fyrir að aðstæður séu mjög erfiðar víða hjá okkar viðskiptavinum þá er alla vega búið að ná sýnilegum árangri. Og þetta er mikilvægt fyrir bankann sem slíkan, að hann vinni sér til baka traust og trúnað," segir Steinþór.

Fréttastofa mun á næstu dögum og vikum fjalla ítarlega um endurskipulagningu á fjárhag íslenskra fyrirtækja, og sölu endurreistu bankanna þriggja á eignum sem yfirteknar voru við hrunið fyrir tæpum fjórum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×