Viðskipti innlent

ESA samþykkir ríkisaðstoð við Íslandsbanka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkti í dag ríkisaðstoð sem veitt var til endurskipulagningar á Íslandsbanka. Stofnunin segir að með þessari endanlegu ákvörðun varðandi ríkisaðstoð til Íslandsbanka sé lokið einu af veigameistu málunum sem ESA hefur haft til rannsóknar í kjölfar hruns fjármálakerfisins á Íslandi árið 2008.

„Bankinn mun áfram mæta áskorunum í því að tryggja rekstrarhæfi til frambúðar, en ég lýsi ánægju minni með þann árangur sem hefur náðst. Íslensk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir umtalsverðum umbótum á löggjöf og reglum um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni. Jafnframt hafa þau nú boðist til að taka á sig skuldbindingar sem ætlað er að tryggja að fjármálamarkaðir á Íslandi muni njóta góðs af vikri samkeppni," sagði frú Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, í tilkynningu á vef ESA.

Íslandsbanki var stofnaður haustið 2008 í framhaldi af hruni Glitnis banka. Innlend starfsemi Glitnis var færð til Íslandsbanka sem og að mestu innlendar eignir og skuldbindingar. Við endurreisnina veittu íslensk stjórnvöld nýja bankanum ríkisaðstoð í formi eiginfjárframlaga, lausafjárfyrirgreiðslu og ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar á innlánum í innlendum bönkum og sparisjóðum.

Tilkynning ESA






Fleiri fréttir

Sjá meira


×