Sport

Ásgeir á Ólympíuleikana eftir allt saman

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Sigurgeirsson, skotmaður úr Skotfélagi Reykjavíkur, keppir á Ólympíuleikunum í London sem hefjast 27. júlí. Ásgeiri var úthlutað aukaplássi á leikana í dag. Frá þessu er greint á heimasíðu Skotfélags Reykjavíkur.

Alþjóðaskotíþróttasambandið tilkynnti í dag að Ásgeiri hefði verið úthlutað sæti í keppni með frjálsri skammbyssu. Fjölgar því enn í hópi íslenskra íþróttamanna á leikunum.

Ásgeir var einu stigi frá því að tryggja sér þátttökuréttinn í loftskammbyssukeppni á síðasta skotfimimótinu fyrir leikana. Eftir fréttir dagsins er ljóst að Ásgeir fær einnig að keppa í þeirri grein.

Ásgeir verður fyrsti Íslendingurinn til þess að keppa í skammbyssugrein á Ólympíuleikum. Carl J. Eiríksson var meðal keppenda í flokki með enskan riffil á leikunum í Barcelona árið 1992. Þá keppti Alfreð K. Alfreðsson í leirdúfuskotfimi í Sidney árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×