Viðskipti innlent

Íbúðaverð hækkar á landinu öllu

Íbúðaverð á landinu öllu hækkaði um 0,8% í júní frá fyrri mánuði samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi hækkun er að mestu tilkomin vegna 1,4% hækkunar fjölbýlisíbúða á höfuðborgarsvæðinu en íbúðir í sérbýli á sama svæði lækkuðu frá fyrri mánuði um 0,4%. Íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hækkaði í verði um 0,6% frá fyrri mánuði.

Það sem af er ári hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 3,1% og undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð hækkað um 7,7% að nafnvirði. Að teknu tilliti til verðbólgu þ.e. að raunvirði nemur hækkun húsnæðis undanfarna 12 mánuði 2%.

Undanfarna 12 mánuði hafa íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 8,1% að nafnvirði en íbúðir á landsbyggðinni um 7,2%. Á öðrum ársfjórðungi hækkaði húsnæðisverð um 2,1% frá fyrri fjórðungi og um 7,6% frá sama fjórðungi fyrra árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×