Viðskipti innlent

Töluverð styrking á gengi krónunnar í júní

Töluverð styrking hefur orðið á gengi krónunnar í júnímánuði og reiknað er með að gengið styrkist áfram fram á haust.

Gengisvísitalan stendur nú í tæpum 220 stigum. Undir lok síðasta mánaðar var gengisvísitalan tæp 226 stig, og hefur krónan þar með styrkst um hátt í 3% á þessum tíma.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að gengið sé á svipuðu róli og það var um miðjan janúar síðastliðinn. Evran kostar nú tæpar 158 krónur á innlendum millibankamarkaði, en var á rúmar 162 krónur í lok maí og dollarinn sem kostar nú tæpar 127 krónur hafði verið á 131 krónu í lok maí.

Fram kemur að framundan er það tímabil ársins þar sem krónan styrktist nokkuð í fyrra eða frá júlí fram í lok október en þá styrktist krónan um rúm 4%. Mátti rekja þá styrkingu til árstíðarbundinnar sveiflu í gjaldeyrisstraumnum vegna ferðamanna en háannartími ferðaþjónustunnar fer nú í hönd og vegur hún orðið þungt í gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Síðasta sumar og fram á haust stóðu ferðamenn þannig undir um þriðjungi af heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar á því tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×