Viðskipti innlent

Hagar hagnast um 628 milljónir á fyrsta ársfjórðungi

Hagnaður Haga á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi rekstrarárs nam 628 milljónum króna eftir skatta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum til Kauphallarinnar.

Um er að ræða frá tímabilið 1. mars til 31. maí í ár. Fram kemur að vörusala nam tæpum 17,4 milljörðum króna, samanborið við 16,5 milljarða króna fyrir sama tímabil árið áður. Söluaukning félagsins er því 5,2% milli ára.

Í tilkynningunni segir að heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 24,6 milljörðum króna. Fastafjármunir voru 12,5 milljarðar króna og veltufjármunir rúmlega 12 milljarðar króna. Birgðir hafa aukist á tímabilinu en það er nokkuð eðlilegt í rekstri félagsins þar sem birgðir ná yfirleitt lágmarki í lok febrúar og hækka svo aftur þegar nær dregur sumri.

Eigið fé félagsins var 6,9 milljarðar króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 28,0%. Eiginfjárhlutfall í lok síðasta rekstrarárs var 26,6%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 17,7 milljarðar króna, þar af eru langtímaskuldir tæplega 10 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×