Viðskipti innlent

Ævintýri framundan í Þingeyjarsýslum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ævintýri er að hefjast, segir bæjarstjóri Norðurþings, sem áætlar að tólf- til fimmtánhundruð manns þurfi við uppbyggingu í Þingeyjarsýslum á næstu árum og að áttahundruð varanleg störf skapist í héraðinu.

Tíu milljarða króna framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjast líklega þegar í haust. Á næsta ári gæti hafist fimmtíu milljarða uppbygging tveggja kísilvera á Bakka, PCC og Thorsils, önnur eins fjárfesting í virkjunum í Bjarnarflagi og á Þeistareykjum, ásamt fimm milljarða fjárfestingu Landsnet í línukerfi, og loks stefnir í tuttugu milljarða uppbyggingu Nubos á Grímsstöðum. Í Þingeyjarsýslum sjá menn fram á fjölda starfa.

„1200-1500 manns sem koma þarna á uppbyggingartímanum. Og þegar þessu verður lokið erum við að vonast til að búið verði að skapa í kring um 800 varanleg störf í sýslunni," segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings.

Ekkert er hins vegar ákveðið og raforkusamningar eru með fyrirvörum.

„Ég hef góða trú á þessu. Við erum komnir ansi langt. Þannig ég er nokkuð bjartur á að þetta fari að ganga upp eftir allt erfiðið undanfarin ár. Ævintýrið er að fara í gang. Það er bara þannig að þegar menn vilja hafa áhrif á svæði sem að hafa verið í vörn í mörg ár þá krefst það bara þrautseigju, eljusemi og það að gefast ekki upp. Og ég er sannfærður um það að þessi barátta sem við höfum háð mun skila samfélaginu góðu," segir Bergur.

Þetta verða náttúrlega alger umskipti fyrir þetta samfélag, segir fréttamaður.

„Svo sannarlega, enda þurfum við á því að halda," svarar Bergur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×