Stýrivaxtahækkun Seðlabankans kom Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á óvart. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Einar K. Guðfinnsson vakti máls á peningamálastefnu Seðlabankans og spurði sérstaklega hvort Jóhanna styddi stefnu bankans sem birtist í hækkun stýrivaxta. Bankinn hækkaði stýrivexti í gær um 0,25%.
Spurningunni svaraði Jóhanna ekki afdráttarlaust en benti á að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun og því væru einstakar ákvarðanir hans ekki bornar undir ráðherra.
Hún telur eðlilegt að bankinn geri sitt besta til að halda utan um stöðugleika í samfélaginu og finnst ólíklegt að hann sé að leika sér að því að hækka stýrivexti. Aftur á móti virðast henni ýmsir stuðlar vera Íslandi hagstæðir um þessar mundir „Hagvöxturinn er að fara upp. Atvinnuleysið er að fara niður," sagði hún en benti á að óróleiki á erlendum mörkuðum hefði áhrif á Íslandi.
