Sport

Sala miða á Vetrarólympíuleikana í Sochi til skoðunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Belginn Jacques Rogge er forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar (IOC).
Belginn Jacques Rogge er forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar (IOC). Nordicphotos/Getty
Alþjóða Ólympíunefndin (IOC) hefur til skoðunar miðasölukerfið fyrir vetrarólympíuleikana sem fram fara í Sochi í Rússlandi 2014.

Heimildarmaður Reuters-fréttastofunnar innan raða IOC segir að nefndin velti fyrir sér ýmsum leiðum til að standa að miðasölunni. Töluverðrar gagnrýni hefur gætt vegna framkvæmdar miðasölunnar á Ólympíuleikana í London í sumar þar sem fjölmargir miðar hafa verið seldir á uppsprengdu verði á svörtum markaði.

IOC sendi frá sér yfirlýsingu um helgina þar sem fram kom að rannsókn stæði yfir vegna umfjöllunar breska dagblaðsins Sunday Times á dögunum. Þar kom fram að Ólympíusambönd og þeir aðilar sem rétt höfðu á endursölu miðanna hefðu brotið reglur er vörðuðu miðasölu á leikana í London.

Samkvæmt umfjöllun blaðsins voru fjölmörg sambönd og aðilar sem ýmist keyptu eða seldu miða utan þess svæðis sem aðilarnir hafði rétt til afskipta á. Bæði voru miðar seldir á uppsprengdu verði og seldir áfram til aðila sem áfamseldu miðana án tilskyldra réttinda.

„IOC tekur ásakanirnar afar alvarlega. Komi í ljós að reglur hafi verið brotnar verður brugðist við því," segir í yfirlýsingunni frá nefndinni.

„Ólympíusamböndin eru sjálfstæð sambönd en fáist staðfest að reglur hafi verið brotnar mun IOC ekki hika við að grípa til hörðustu mögulegu refsingar," segir ennfremur í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×