Viðskipti innlent

Endurskipulagning hjá Fasteign, leiga lækkar um 50%

Hluthafafundur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. hefur samþykkt samkomulag milli félagsins og kröfuhafa þess er varðar fjárhagslega endurskipulagningu. Leigugreiðslur munu lækka um allt að 50% fyrstu árin eftir Þessa endurskipulagningu.

Í tilkynningu segir að samningurinn feli í sér að hluti eigna félagsins verður seldur og því minnkar félagið umtalsvert að umfangi og tilgangur þess breytist. Eignarhaldsfélagið Fasteign, sem verður áfram eign 9 sveitarfélaga ásamt Arion banka, verður hreint leigufélag en mun ekki sinna annarri þjónustu við sína leigutaka eins og hingað til er varðar þróun eigna og nýframkvæmdir.

Þá munu leigutakar sjá um allan rekstur eignanna sjálfra ásamt viðhaldi þeirra. Samhliða þessum breytingum er endursamið um kjör og skilmála lánasamninga.

„Leigutakar munu njóta niðurstöðu endurskipulagningar í formi umtalsverðrar lækkunar leigugreiðslna. Gert er ráð fyrir að leigugreiðslur lækki um og yfir 50% fyrstu árin frá því sem nú er. Jafnframt hafa leigutakar kost á því að kaupa leigueignir á mun hagstæðara verði en núverandi samningar gera ráð fyrir. Það gefur leigutökum mikið svigrúm er varðar endurfjármögnun og endurskipulagningu á þeirra eigin fjárhag," segir í tilkynningunni.

„Að sögn Árna Sigfússonar, stjórnarformanns félagsins, hafa öll samningsmarkmið sveitarfélaganna, sem stærstu eigenda í EFF, náðst þó svo að samningaferlið hafi tekið talsverðan tíma. Félagið nær að semja um hagstæð kjör á fjármögnun sem leigutakar njóta í umtalsverðri leigulækkun. Leigan muni þó fylgja kostnaði félagsins og getur því tekið breytingum verði breytingar á ytri aðstæðum. Þá sé mikilvægt að nú er óvissunni eytt um framtíð félagins. Með þessu hafi náðst ásættanleg niðurstaða fyrir alla hagsmunaaðila.

Vinna við frágang málsins er þegar hafin en gert er ráð fyrir að skjalfrágangi verði lokið fyrir miðjan ágúst."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×