Viðskipti innlent

Íslendingur í hópi bónusjarla Lehman Brothers

Sigurbjörn Þorkelsson, sem er einn af eigendum Haga í gegnum fyrirtækið Capital, var með samtals um 24,5 milljónir dollara, eða um 3 milljarða kr., í laun og aðra umbun á árunum 2005 til 2007, þegar hann starfaði hjá bandaríska bankanum Lehman Brothers, m.a. sem yfirmaður afleiðuviðskipta og sem einn af framkvæmdastjórum bankans.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að þetta komi fram í skjölum, sem litu dagsins ljós við skipti á þrotabúi bankans. Sigurbjörn var í 25. sæti yfir launahæstu starfsmenn bankans árið 2007.

Í frétt um málið hér á visir.is í upphafi vikunnar sagði að komið hafi í ljós að 50 af launahæstu starfsmönnum Lehman Brothers bankans fengu sem samsvarar yfir 80 milljörðum króna í bónusgreiðslur mánuðina fyrir gjaldþrot bankans haustið 2008.

Gjaldþrotið setti hinn alþjóðlega fjármálamarkað á hvolf og varð upphaf fjármálakreppunnar í heiminum.

Það er stórblaðið Los Angeles Times sem greinir frá þessu. Í blaðinu kemur fram að hver hinna 50 starfsmanna hafi fengið 8 til 51 milljón dollara í bónusgreiðslur eða samtals um 700 milljónir dollara.

Fréttin hefur vakið mikla hneykslun í Bandaríkjunum enda stóð ekki steinn yfir steini í rekstri Lehman Brothers á þessu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×