Viðskipti innlent

Hagnaður VÍS rúmlega 400 milljónir í fyrra

Hagnaður af rekstri Vátryggingafélags Íslands (VÍS) nam 408 milljónum króna eftir skatta í fyrra, sem er tvöfalt meiri hagnaður en árið 2010 þegar hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta nam liðlega 204 milljónum króna.

Í tilkynningu segir að fjárfestingastarfsemin skilaði 524 milljóna króna hagnaði fyrir skatta árið 2011 en árið áður var tap af fjárfestingastarfsemi 506 milljónir. Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta á árinu 2011 var 95 milljónir króna en árið 2010 var hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 819 milljónir króna.

Vátryggingaskuld VÍS nam 24.792 milljónum króna í árslok. Þar af var tjónaskuld 19.455 milljónir króna. Eignir á móti vátryggingaskuld eru mjög traustar enda að langstærstum hluta í ríkistryggðum skuldabréfum.

Fjárhagslegur styrkur VÍS er sem fyrr traustur og nemur eigið fé félagsins 11,6 milljörðum króna í lok ársins 2011 og eiginfjárhlutfall rúmum 30%.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS segir afkomu ársins undir væntingum. „Félagið tekur meðal annars þátt í alþjóðlegum endurtryggingum á sviði náttúruhamfara og var árið 2011 erfitt á þeim markaði með stórum jarðskjálftum og flóðum víða um heim," segir Sigrún Ragna í tilkynningunni.

"Hér heima var einnig nokkuð um stór tjón, í brunatryggingum og sjótryggingum sem settu strik í vátryggingarekstur félagsins. Rekstur lögboðinna ökutækjatrygginga var þungur á árinu líkt og á árinu 2010.

Það eru spennandi tímar framundan og mikil tækifæri til að gera öflugt félag enn betra. Í því sambandi má nefna að nú í mars skrifaði VÍS undir samning við móðurfélag sitt, Klakka hf., um kaup á systurfélaginu, Líftryggingafélagi Íslands (Lífís). Á árinu 2012 mun Lífís því verða hluti af samstæðu VÍS og styrkja starfsemi og þjónustu félaganna enn frekar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×