Viðskipti innlent

Ísland í 19. sæti yfir meðallaun launafólks í heiminum

Ísland er í 19. sæti þjóða þegar kemur að meðallaunum almenns launafólks í heiminum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Alþjóða vinnumálastofnunarinnar.

Hæstu meðallaun almenns launafólks í heiminum eru í Lúxemborg en þar fær launþeginn að meðaltali rúmlega hálf milljón króna á mánuði. Noregur er í öðru sæti en þar eru meðallaunin tæplega 470 þúsund krónur. Ísland mælist í 19. sæti en þar eru meðallaunin tæplega 310 þúsund krónur.

Þetta kemur fram í útreikningum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um meðallaun í 72 löndum víða um heiminn. Í frétt um málið á BBC segir að þetta sé í fyrsta sinn sem þessar upplýsingar eru teknar saman en þær ná aðeins yfir almennt launafólk en ekki einstaklinga sem eru með sjálfstæðan rekstur. Öllum upphæðum sem koma fram í úttektinni hefur verið breytt til að taka mið af mismunandi framfærslukostnaði frá einu landi til annars.

Danmörk er ekki með á listanum en bæði Svíþjóð og Finnland eru í topp tíu sætunum, ásamt Noregi, hvað meðallaunin varðar.

Til samanburðar má nefna að í Pakistan sem vermir botninn á þessum lista eru meðallaunin aðeins 32 þúsund krónur á mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×