Viðskipti innlent

Vöruskiptin 5,9 milljörðum hagstæðari en í fyrra

Fyrstu tvo mánuðina í ár voru fluttar út vörur fyrir 101,5 milljarða króna en inn fyrir 78,7 milljarða króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd sem nam 22,8 milljörðum kr. Á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 16,9 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 5,9 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að í febrúarmánuði voru fluttar út vörur fyrir 54,2 milljarða króna og inn fyrir 41,6 milljarða króna. Vöruskiptin í febrúar voru því hagstæð um 12,6 milljarða króna. Í febrúar 2011 voru vöruskiptin hagstæð um 8,8 milljarða króna á sama gengi.

Fyrstu tvo mánuði ársins 2012 var verðmæti vöruútflutnings tæpum 13,0 milljörðum eða 14,7% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 55,0% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 5,7% meira en á sama tíma árið áður.

Sjávarafurðir voru 40,6% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 32,2% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í útflutningi sjávarafurða, aðallega á ferskum fiski og fiskimjöli. Einnig var aukning í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls og afurða þess.

Fyrstu tvo mánuði ársins 2012 var verðmæti vöruinnflutnings 7,2 milljörðum eða 10,0% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Aukning á verðmæti innflutnings varð mest í eldsneyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×