Viðskipti innlent

Þriðjungur fyrirtækja undir yfirráðum bankanna

Nærri þriðja hvert stórfyrirtæki í landinu er undir yfirráðum bankanna eftir því sem fram kemur í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem ber heitið Endurreisn fyrirtækja - aflaklær eða uppvakningar.

Þar kemur fram að bankar hafi verið í ráðandi stöðu í 27% af stærstu fyrirtækjum landsins í byrjun þessa árs. Það er hins vegar veruleg breyting frá því í fyrra þegar nær helmingur, eða 46%, stærstu fyrirtækja landsins voru undir yfirráðum bankanna.

Breytingin kemur til af því að 20 félög hafa verið endurskipulögð eða seld á árinu og því telur Samkeppniseftirlitið að kröfuhafar þeirra félaga hafi ekki lengur ítök í rekstrinum. Einnig kemur fram í skýrslunni að meirihluti fyrirtækja sem lokið hafa endurskipulagningu hafa skipt um ráðandi eigendur frá hruni.

Sé miðað við síðustu áramót sé staðan sú að af þeim 56 fyrirtækjum sem hafa farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, verið yfirtekin af banka, orðið gjaldþrota eða lokið nauðasamning, þá hafi 35 fyrirtæki, eða 63%, skipt um ráðandi eigendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×