Viðskipti innlent

Bændasamtökin hafa lengi viljað leggja Fóðursjóðinn niður

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands segir að bændasamtökin hafi lengi viljað að Fóðursjóðurinn yrði lagður niður. Raunar gildi það einnig um fleiri inn- og útsjóði eins og Haraldur kallar þá.

Eins og fram kom í frétt hér á visir.is í morgun vill Ríkisendurskoðun að Fóðursjóðurinn sé lagður niður enda sé hann óþarfur og gagnslaus. Samt sem áður verji ríkið 1.400 milljónum króna til sjóðsins í ár sem er sama upphæð og sjóðurinn fékk í fyrra.

Haraldur segir að bændasamtökin séu sammála mati Ríkisendurskoðunar og hafi lengi viljað leggja þennan sjóð niður. „Þetta gildir einnig um ýmsa aðra inn- og útsjóði landbúnaðarkerfisins sem vil viljum leggja niður enda skapa þeir ekkert annað en aukin útgjöld fyrir bændur," segir Haraldur.

Aðspurður um af hverju ekki væri búið að leggja Fóðursjóðinn niður fyrir löngu ef það er vilji bænda segir Haraldur að þeirri spurningu verði stjórnvöld að svara. „Við ráðum ekki hvaða sjóðir eru til á vegum hins opinbera," segir Haraldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×