Viðskipti innlent

Bensínverð hækkar áfram, litlu munar á stöðvum

Mynd/Vísir.
Bensínverð heldur áfram að þokast uppávið og nú munar aðeins orðið nokkrum aurum á milli verðs á mannlausum stöðvum og stóru stöðvunum. Þá er verð á bensíni og dísilolíu orðið það sama.

Eftir að Orkan hækkaði bensínverðið um fjórar krónur í gærkvöldi og Atlantsolía hækkaði í morgun kostar bensínlítrinn rúmar 266 krónur á öllum mannlausu stöðvunum eða alveg álíka og á stóru stöðvunum hjá N1 og Olís, en bensínið er tveimur krónum dýrara hjá Skeljungi. Fram undir þetta hefur verið nokkurra króna munur þarna á.

Þá er verð á dísilolíu orðið alveg á pari við bensínið, en stutt er síðan að dísillítrinn var allt að tíu krónum dýrari en bensínið. Nú sjást jafnvel dæmi um að dísilolían sé komin aðeins niður fyrir bensínið í verði.

Að vanda skýra olíufélögin þetta með háu heimsmarkaðsverði og lækkun á gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadollar, en skýringar á verðjöfnun á milli bensíns og dísils eru hinsvegar óljósar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×