Viðskipti innlent

ÍLS skilaði tæplega milljarðs hagnaði í fyrra

Íbúðalánasjóður (ÍLS) skilaði 986 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er verulegur viðsnúningur til hins betra því árið á undan varð 34,5 milljarða kr. tap á starfsemi sjóðsins.

Þetta kemur fram í ársreikningi ÍLS sem staðfestur hefur verið af stjórn sjóðsins. Í reikningum kemur fram að eigið fé Íbúðalánasjóðs í árslok var 9,55 milljarðar kr. samanborið við rúma 8,56 milljarða í árslok 2010.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins er 2,3% en var 2,2% í upphafi ársins. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0% og viðræður við stjórnvöld miða að því að uppfylla það markmið.

Í ársbyrjun 2011 var ákveðið með samkomulagi lánveitenda og stjórnvalda að ráðast í niðurfærslu lána umfram 110% af markaðsvirði fasteigna. Um 5.200 heimili sóttu um úrræðið til Íbúðalánasjóðs. Þegar tekið hafði verið tillit til markaðsverðs fasteigna og frádráttarbærra eigna varð niðurstaðan sú að um 2.800 heimili fengu niðurfærslu að fjárhæð 7,2 milljarða króna eða um 2,6 milljónir króna að meðaltali á heimili. Um 2.400 heimili fengu synjun en þar af voru 500 heimili þar sem húsnæði var ekki veðsett umfram 110%.

Á árinu leysti sjóðurinn til sín 691 íbúð til fullnustu krafna og seldi 154 íbúðir. Í eigu sjóðsins voru 1.606 fullnustueignir í lok árs 2011 og hafði þeim fjölgað um 537 á árinu. Um 40% þessara eigna eru í útleigu. Íbúðalánasjóður leigir eignir á þeim svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og sjóðurinn er ekki með ráðandi markaðshlutdeild, en aðrar eignir fara í söluferli. Bókfært virði þessara eigna tekur mið af áætluðu markaðsvirði að teknu tilliti til ástandsmats, alls 22,5 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×