Viðskipti innlent

Hagnaður Framtakssjóðs nam 2,3 milljörðum

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands.
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands.
Framtakssjóður Íslands skilaði 2.343 milljónum króna í hagnað af starfsemi sinni á síðasta ári, samanborið við 700 milljónir króna árið áður. Heildareignir sjóðsins í árslok námu 28,2 milljörðum króna en þær voru 5,6 milljarðar á sama tíma 2010, að því er fram kemur í tilkynningu. Eigið fé í árslok var 27,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 97,9%.

„Eignarhlutir sjóðsins í fyrirtækjum eru færðir á kostnaðarverði nema eignarhlutir í skráðum félögum sem eru metnir á markaðsverði," segir ennfremur. „Hagnaður Framtakssjóðsins á árinu skýrist því af hækkun markaðsvirðis Icelandair Group. Sjóðurinn hefur, í samvinnu við endurskoðendur félagsins, lagt mat á áætlað gangvirði þeirra eignarhluta sem fjárfest hefur verið í og er metið að það sé ekki undir 39,3 milljörðum króna. Áætlað virði miðast við niðurstöður virðisrýrnunarprófa undirliggjandi eigna."

Þá segir að í ársbyrjun 2011 hafi hlutur sjóðsins í Icelandair Group verið eina hlutabréfaeign félagsins. „Á árinu bættust eignarhlutir í alls 7 félögum í eignasafn Framtakssjóðsins. Þetta eru Advania, Húsasmiðjan, Vodafone, N1, Icelandic Group, Plastprent og Promens. Á árinu seldi Framtakssjóðurinn svo eignarhluti í tveimur félögum. Annars vegar 10% hlutafjár í Icelandair en sjóðurinn á eftir þau viðskipti enn 19% hlut í Icelandair Group. Hins vegar seldi sjóðurinn rekstur og eignir Húsasmiðjunnar og á nú ekki hlut í félaginu."

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands segir að síðasta ár hafi verið afar viðburðarríkt. „Sjóðurinn hefur frá stofnun átt umtalsverðan þátt í endurfjármögnun, endurskipulagningu og breyttu eignarhaldi nokkurra lykilfyrirtækja sem voru að stærstum hluta í eigu banka og hefur því sannarlega sinnt því hlutverki sem honum var ætlað."

Þorkell bætir því við að eignasafn sjóðsins sé mjög gott og að færa megi rök fyrir því að fjárhagsstaða sjóðsins sé enn sterkari en bókfært eigið fé gefi til kynna. „Metið virði þeirra eignarhluta sem fjárfest hefur verið í er um 39,3 milljarðar, en bókfært verð sömu eigna 27,2 milljarðar króna. Þessi munur endurspeglar þann árangur sem náðst hefur í fjárfestingum sjóðsins."

FélagEignarhluturFSÍ
Advania75%
Icelandair19%
Icelandic Group100%
N1

16%
Plastprent

100%
Promens

49,5%
Vodafone

79%





Fleiri fréttir

Sjá meira


×