Viðskipti innlent

Yfir 50 þúsund borgarar seldust - ætla að fá metið skráð hjá Guinness

Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hópkaupa.is.
Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hópkaupa.is. mynd úr einkasafni
Íslendingar keyptu hamborgara fyrir rúmlega fimm milljónir í gær þegar að yfir 50 þúsund hamborgar hjá veitingastaðnum Metró seldust á vefnum hópkaup.is. Það er met hjá síðunni en aldrei hafa fleiri keypt tilboð á síðunni, en fyrra metið átti einmitt Metró þegar alveg eins tilboð stóð til boða í október á síðasta ári. Í tilboðinu í gær var hægt að kaupa hamborgara hjá Metró á 99 krónur í staðinn fyrir 350 krónur en það verður að teljast ansi góður afsláttur.

Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hópkaupa, segir að í október hafi fyrirtækið lent í tæknierfiðleikum og síðan hafi legið niðri um tíma.

„Við vorum núna búnir að uppfæra kerfið fyrir margar milljónir og það var ekkert sem kom upp, þetta gekk bara eins og í sögu. Við bættum við 11 þúsund sölum frá því fyrra sem er met hjá okkur. Við höldum reyndar að þetta sé met í Evrópu," segir hann og bendir á að það sé ekki miðað við höfðatölu.

„Maður hefur ekki séð svona tölur í þessum geira í Evrópu. Þetta sést stundum í Bandaríkjunum en ekki oft. Ég held að við séum að ná árangri sem er ótrúlegur á heimsvísu, við erum svo svakalegir við Íslendingar."

Og nú ætla forsvarsmenn fyrirtækisins að athuga hvort að þessar 52 þúsund tilboð sem seldust í gær séu heimsmet. „Við erum að spá í að hafa samband við heimsmetabók Guinness og athuga hvort þetta sé ekki hreinlega met."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×