Handbolti

Alfreð fór létt með Guðmund | 21. sigur Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Narcisse og Oliver Roggisch í baráttunni.
Daniel Narcisse og Oliver Roggisch í baráttunni. Nordic Photos / Getty Images
Kiel sýndi enn og aftur yfirburði sína í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld er liðið vann auðveldan sigur á Rhein-Neckar Löwen, 33-25.

Kiel hefur unnið alla sína leiki á tímabilinu, 21 talsins. Sannarlega ótrúlegur árangur en Löwen, sem hafði gott tak á Kiel í fyrra, reyndist lítil fyrirstaða fyrir Alfreð Gíslason og hans menn í Kiel.

Miklu munaði um tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik þar sem að Kiel skoraði sjö mörk í röð og komst átta mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 17-9, Kiel í vil, og var aldrei mikil spenna í síðari hálfleiknum.

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark í leiknum fyrir Kiel en Róbert Gunnarsson ekkert fyrir Löwen, þó svo að hann hafi spilað nokkuð í seinni hálfleiknum. Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Rhein-Neckar Löwen sem er í fimmta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.

Filip Jicha fór mikinn í leiknum og skoraði tíu mörk fyrir Kiel. Markahæstur hjá Löwen var hornamaðurinn Uwe Gensheimer með átta mrök, þar af tvö af vítalínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×