Handbolti

Knudsen um Kiel-liðið: Kannski besta félagslið allra tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael V. Knudsen reynir hér að stoppa Aron Pálmarsson í leik Kiel og Flensburg.
Michael V. Knudsen reynir hér að stoppa Aron Pálmarsson í leik Kiel og Flensburg. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Michael V. Knudsen, línumaður Flensborg og danska landsliðsins, var fengin til að segja skoðun sína á liði Kiel fyrir Meistaradeildarleikinn á móti AG Kaupmannahöfn um helgina. AG tekur á móti Kiel á sunnudaginn í úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum en leikurinn verður sýndur beinni útsendingu á Sporttv.is klukkan 15.50 á sunnudaginn.

„Þetta lið er allt annars eðlis en liðin sem AG er vanalega að spila við í dönsku deildinni. Þeir eru með virkilega gott lið, vel mannaðir í öllum stöðum og í raun með tvo heimsklassamenn í hverri stöðu," sagði Michael V. Knudsen við sporten.tv2.dk.

„Leikmenn Kiel eru á góðum aldri og enginn þeirra er orðinn mjög gamall. Á sama tíma hafa þeir öðlast mikla reynslu. Leikmenn þeirra myndu styrkja öll lið í heiminum og þetta er mjög sérstakt lið," sagði Knudsen sem segir stærstu stjörnur Kiel-liðsins vera Thierry Omeyer, Filip Jicha, Daniel Narcisse og Kim Andersson.

„Þeir spila vel saman og eru allt liðsmenn. Þeir eru allir frábærir leikmenn en gera líka aðra betri í kringum sig. Þetta er kannski besta félagslið allra tíma," sagði Knudsen um lærisveina Alfreðs Gíslasonar.

Kiel er búið að vinna 21 leik í röð í þýsku úrvalsdeildinni og hefur aðeins tapað stigum í tveimur leikjum í Meistaradeildinni. Það er því ljóst á öllu að það bíður AG ekki auðvelt verkefni á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×