Handbolti

Alfreð Gíslason: Mikkel Hansen sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, hrósaði dönsku stórskyttunni Mikkel Hansen í viðtali við danska fjölmiðla. Kiel mætir Hansen og félögum í AG Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni á sunnudaginn í úrslitaleik um sigurinn í riðlinum.

„Við þurfum að hafa auga með mörgum leikmönnum hjá AG því í liðinu eru margir góðir og reyndir leikmenn," sagði Alfreð Gíslason við sporten.tv2.dk.

„Mikkel Hansen er frábær leikmaður og hefur líklega verið besti leikmaður í heimi síðustu mánuði," sagði Alfreð. Alfreð hrósaði líka línumanninum Rene Toft Hansen sem er á leiðinni til Kiel á næsta tímabili.

„Hann er að verða betri og betri varnarmaður og spilaði mjög vel á Evrópumótinu," sagði Alfreð sem býst við jöfnun leik á sunnudaginn.

„Við spiluðum ekkert sérstaklega vel í heimaleiknum en ég býst við 50-50 leik þrátt fyrir að leikurinn fari fram í Kaupmannahöfn," sagði Alfreð. Kiel vann 28-26 sigur á AGK í fyrri leik liðanna í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×